148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessu andsvari hafi ekki komið fram nein spurning til mín, eða ég gat ekki lesið það í gegn. Ég held samt að nauðsynlegt sé að fara aðeins yfir þetta. Hv. þingmaður talar hér um málþóf. Ég veit ekki hvort hann hefur heyrt það sem ég fór yfir í ræðu minni, hann kann að hafa misst af því. Ég var að tala um að auðvitað hefði verið eðlilegt að sú umræða sem átt hefur sér stað hér í dag hefði komið fram í 2. umr. um málið. En 2. umr. fór hér í gegn með mjög sérstökum hætti. (Gripið fram í.)Það hefði líka getað komið fram í 1. umr., það er alveg rétt og ég fór yfir það að ég hafði áður tekið þátt í 1. umr. um sambærilegt mál sem hafði verið lagt hér fyrir, en það tóku sex þingmenn þátt í 1. umr. um þetta mál.

Í 2. umr. háttaði aftur á móti svo til að fjöldi þingmanna var búinn að setja sig á mælendaskrá og ég var ein af þeim sem ætlaði að gera það. En áður en ég vissi af var þingfundi lokið og umræðunni þar með. Ég veit ekkert hvað olli því, hvort fólk hefur tekið sig saman í einhverjum slíkum aðgerðum eða ekki, ég bara veit það ekki. Við erum hér að tala um ákveðna grundvallarbreytingu. Það hlýtur að vera sanngjarnt og eðlilegt að fólk sem hefur skoðun á þeirri grundvallarbreytingu fái tækifæri til að koma hingað upp og halda ræðu og útskýra afstöðu sína. Það er einfaldlega það sem ég var að gera og hygg að það sé það sem þingmenn hafa verið að gera hér í dag. Ég tek það fram að þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ tækifæri til að koma upp í ræðu um þetta mál, fyrir utan stutta atkvæðaskýringu. Mér finnst alla vega mikilvægt, þegar við göngum til atkvæða, að fyrir liggi hver sjónarmið mín eru og hver afstaða mín er í þessu máli.