148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

vegtollar.

[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tek undir að það þarf að fara að skoða nýjar gjaldtökuleiðir til að byggja upp umferðarmannvirki, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur vítt og breitt um landið. Það er mikilvægt að við förum í það verkefni.

Ég fagna því hins vegar að ég tel hæstv. forsætisráðherra hafa svarað spurningu minni áðan þannig að hún er fallin frá ræðu sinni í byrjun október 2017, rétt fyrir kosningar. Þá talaði hún m.a. um ágæt fylgitungl Sjálfstæðisflokksins. Ég get ekki lesið það betur en svo að Vinstri græn séu nú orðin ágætisgervitungl með þeim flokki miðað við hver afstaðan er til gjaldtöku í samgönguframkvæmdum.

Það sem skiptir mestu máli er að við horfumst í augu við veruleikann. Það finnst mér hæstv. samgönguráðherra vera að gera í dag. Það gerði forveri hans í starfi líka. Það þarf meira fjármagn og þýðir ekki að loka augunum fyrir því að við verðum að leita allra leiða. Fjármálaáætlunin segir blákalt við okkur sem byggjum m.a. á því að keyra um landið að ekki sé verið að fjárfesta (Forseti hringir.) nægilega í vegaframkvæmdum. Það þarf að leita allra leiða. Þess vegna fagna ég því að hæstv. forsætisráðherra sé tilbúin til að fara í þá leið með okkur.