148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

lög um félagasamtök til almannaheilla.

407. mál
[17:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða lagaumhverfi almannaheillasamtaka. Ég tek undir með fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra, þessi samtök þjóna gríðarlega mikilvægu hlutverki. Það er ljóst að ef ríkissjóður ætlaði að fjármagna alla þá starfsemi sem fer fram, og er að meginþunga til borin upp af sjálfboðaliðastarfi og áhugahvöt, yrði um mikla fjármuni að ræða. Ég fagna þeim breytingum sem orðið hafa á skattalöggjöf til ívilnana fyrir þessi samtök, sem hæstv. ráðherra kom inn á. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort til sé heildstæð samantekt á því hvernig slíkum ívilnunum er háttað á öðrum Norðurlöndunum og í nágrannalöndunum, hvort það hefur verið tekið saman, hvort hæstv. ráðherra viti til þess.