148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

eftirfylgni við þingsályktun nr. 22/146.

267. mál
[18:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu fyrirspurn. Eins og þingmaðurinn fór réttilega yfir skipar Hraun í Öxnadal sérstakan sess í sögu lands og þjóðar. Framlag þjóðskáldsins og fræðimannsins Jónasar Hallgrímssonar til fræða og menningar er lofsvert og því afar mikilvægt að við höldum því á lofti.

Með bréfi dagsettu 14. júní 2017 var ráðuneytinu send þingsályktun um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal sem samþykkt hafði verið á Alþingi 31. maí 2017. Ráðuneytið hafði sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn um þingsályktunartillöguna þegar afgreiðsla hennar var í undirbúningi þar sem meðal annars var bent á að jörðin Hraun í Öxnadal hefði verið friðlýst af umhverfisráðherra árið 2007 sem fólkvangur. Tilgangur friðlýsingarinnar hefði verið að vernda svæðið til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu en verndargildi þess byggðist á að landslag og náttúrufar, sérstaklega jarðmyndanir, væri mjög fjölbreytt. Þá var bent á að félagið sem væri eigandi jarðarinnar væri í meirihlutaeigu Hörgársveitar og því bæri sveitarfélaginu sérstök skylda til að hlúa að starfsemi félagsins og fólkvangsins.

Með vísan til ofangreindra atriða taldi ráðuneytið eðlilegast að í tillögunni væri lagt til að Alþingi ályktaði að fela mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra þetta sameiginlega verkefni í samvinnu við Hörgársveit og jarðeiganda. Með bréfi dagsettu í nóvember síðastliðnum til umhverfis- og auðlindaráðherra var óskað eftir tilnefningu fulltrúa þess ráðuneytis til að vinna með fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins að frekari framgangi þingsályktunarinnar sem nú hefur borist.

Virðulegi forseti. Í tilefni fyrirspurnar hv. þingmanna get ég ekki látið hjá líða að nefna Dag íslenskrar tungu sem haldinn hefur verið hátíðlegur um land allt frá árinu 1996 á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Eins og þingheimi er kunnugt er efnt til fjölbreyttra viðburða um land allt í skólum og stofnunum og veitt eru verðlaun Jónasar Hallgrímssonar auk viðurkenninga í tilefni dagsins. Á þessum degi minnumst við þjóðskáldsins sem á sérstakan sess í vitund og menningu landsmanna. Það er brýnt að halda minningu Jónasar Hallgrímssonar ætíð á lofti og ná til nýrra kynslóða. Samþykkt þingsályktunartillögunnar hér á Alþingi, um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar, er áfangi á þeirri leið.

Næstu skref í málinu eru að kynntar verða tillögur ráðuneytisins að frekari uppbyggingu staðarins á næstu mánuðum. Við metum starf Jónasar Hallgrímssonar mikils og mun vinnan taka mið af því. Mér finnst mjög brýnt að við tengjum saman í ríkari mæli menningu og ferðaþjónustu. Ég lít svo á að eitt af markmiðunum með þessari þingsályktun sé að gera svo.

Virðulegi forseti. Ég vonast til góðs samstarfs við Alþingi um framkvæmd þessarar þingsályktunar og frekari samvinnu er varðar þær tillögur sem við erum að vinna að í ráðuneytinu.