148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

undanþágur frá banni við hergagnaflutningum.

343. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra svörin en eftir að hafa greint og hlustað og farið aftur í gegnum embættismannaorðin og -þuluna þá reyndi ég að greina pólitíkina í orðum ráðherra og hún er sú að hæstv. ráðherra, þegar hann hefur fengið málin til sín, ætlar að veita undanþágur, vissulega miðað við alþjóðaskuldbindingar. Hvað annað?

Skýrslubeiðni sem er búin að liggja hátt í tvo mánuði inni í utanríkismálanefnd fékkst ekki afgreidd. Reyndar væri áhugavert að fá að ræða það einn daginn og við í stjórnarandstöðunni munum gera það. Hún er búin að liggja hátt í tvo mánuði inni í nefndinni af því að menn treystu sér ekki til að afgreiða þetta á þeim forsendum að þetta væri að hluta til á borði samgönguráðherra. Þetta vita allir, en skýrslubeiðnin fjallar fyrst og fremst um alþjóðaskuldbindingar okkar og vopnaflutninga. Undir allar alþjóðaskuldbindingar okkar skrifar hæstv. utanríkisráðherra hverju sinni. Þess vegna var eðlilegt að skýrslubeiðninni væri beint til utanríkisráðherra en Sjálfstæðisflokkurinn kom því miður í veg fyrir það að nefndin væri öll á skýrslubeiðninni.

Gott og vel. Ég get ekki annað en greint það þannig, hæstv. ráðherra verður þá bara að leiðrétta mig, að ef og þegar málin koma til utanríkisráðuneytisins þá verða undanþágur veittar til vopnaflutninga, miðað við hvert og eitt mál. Það verður farið yfir hvert og eitt mál og hugsanlega verða undanþágur veittar. Meginreglan verður sú að það er bann en hugsanlega verða undanþágur veittar.

Við skiljum öll hér inni eins og ég gat um áðan ef þær undantekningar eru gerðar á grundvelli alþjóðaskuldbindinga okkar og í tengslum við hernaðar- og öryggissamstarf okkar við NATO, en hvað annað þarf þá koma til viðbótar, burt séð frá því? Það er það sem vekur upp spurningar í mínum huga. Er það eingöngu á grundvelli öryggis- og varnarsamstarfs okkar og alþjóðaskuldbindinga eða er eitthvað annað? Þetta er enn þá skilið eftir opið. (Forseti hringir.) Hér þarf að svara skýrt og það er það sem við erum að fara fram á, hæstv. forseti.