148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Mjög oft hefur verið rætt hér í sölum Alþingis um stöðu löggjafarvaldsins og hún talin veik, sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég nýtti mér jómfrúrræðu mína á þinginu til að ræða þetta mikilvæga mál undir liðnum um ný vinnubrögð á Alþingi og ætla enn að minnast á það hér.

Flest erum við sammála um að allt of lítið er unnið hér á Alþingi við að laga smíðina sjálfa, hér á sjálfu löggjafarþingi þjóðarinnar. Þannig koma allt of fá mál beint frá nefndum þingsins, þá er ég að meina að mál sem útbúin eru í eða af nefndunum sjálfum, og held ég að flestir þingmenn séu á því að þar mætti verulega bæta í. Þingmannamál eða frumvörp frá einstökum þingmönnum eða hópum þeirra eru oft einu málin sem samin eru af kjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Öll önnur mál koma úr ráðuneytunum og stofnunum framkvæmdarvaldsins.

Ég er ekki að gera lítið úr ýmsum lagfæringum sem þingið gerir á frumvörpunum sem auðvitað er heilmikil og góð vinna. Ég er einungis að benda á að til að efla þingið er ein helsta leiðin að auka verulega við lagasmíðar hér innan veggja löggjafarsamkundunnar. Hvað er til ráða? Ráða fleira fólk? Já. Það kostar. Hvers vegna færum við ekki helminginn af því fólki sem vinnur í ráðuneytunum við lagasmíð hingað undir Alþingi? Það kostar ekki neitt. Í ráðuneytunum vinna um 700 manns. Ef við gerum ráð fyrir að 10–15% þess fólks vinni við lagasmíðina, sem mér finnst ekki ósennilegt, er unnt að flytja 40 sérfræðinga undir Alþingi fyrir ekkert fjármagn. Bara færsla í bókhaldinu og húsnæði má jafnframt færa til milli þessara stofnana. Þetta má gera á einum til tveimur árum á einfaldan hátt.

Einfalt? (Gripið fram í.) Kannski of einfalt. En eru einföldu lausnirnar ekki oft bestu lausnirnar? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)