148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum, stuðningsmönnum stjórnarinnar og hæstv. ráðherra fyrir að taka hér til máls og taka undir með okkur um að þetta sé nú ekki alveg í besta farvegi. Það er auðvitað best að byrja á að sammælast um að þetta sé ekki nógu gott.

Það hryggir mig örlítið að menn fara í þann farveg að þetta hafi nú oft verið svona áður og þetta sé ekkert verra en í fyrra. Þið voruð nú ekkert betri, er sagt, og menn fara að rifja upp hvað var sagt þá og þá. Munurinn er sá að þessi ríkisstjórn lagði í stjórnarsáttmála sínum lykkju á leið sína til að taka samstarfið við Alþingi inn í stjórnarsáttmálann með sérstökum hætti. Til stóð að bæta vinnubrögðin og samstarfið við Alþingi. (Forseti hringir.) Í stað þess að taka undir og játa að þetta sé ekki nógu gott, en samt nógu gott fyrir okkur, ætti þessi ríkisstjórn einmitt að brjóta odd af oflæti sínu, taka mark á eigin stjórnarsáttmála og breyta vinnubrögðunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)