148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

kostir og gallar aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

478. mál
[14:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mat á EES-samningnum er mikilvægt verkefni. Þess vegna styð ég í sjálfu sér efni þessarar skýrslubeiðni. Hins vegar verður að taka fram, af því að í greinargerð er sérstaklega vísað til vinnu Norðmanna um svipað eða sama efni, að sú vinna var falin sérfræðinganefnd og hún hafði tvö ár til verksins. 12 eða 13 sérfræðingar voru í nefndinni. Hún hélt fjölmarga opna fundi um Noreg. Hún skoðaði líka kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Þessi nefnd hér — það er ekki nefnd einu sinni, það er utanríkisráðherra og honum er í sjálfsvald sett hvernig hann gerir þetta — fær tíu vikur. Ég bið ykkur að hugsa um hversu vönduð úttekt það verður, sérstaklega ef menn vonast eftir sambærilegri skýrslu og Norðmenn gerðu (Forseti hringir.) sem var allt annars eðlis en hér er lagt upp með.