148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

457. mál
[19:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þessu, ekki síst þegar við erum, eins og ég nefndi í mínu fyrra andsvari, að þreifa okkur inn í nýjan veruleika. Meðal annars af þeim ástæðum hef ég ákveðið að efna til fundar í Bolungarvík á þriðjudagskvöldið kemur með Hafrannsóknastofnun. Ég óskaði eftir því við stofnunina að hún færi út á svæðið til að kynna áherslurnar varðandi sérstaklega áhættumatið og vinnu sína í þessum efnum.

Ég hef orðið var við það í mínu starfi að það ber töluvert mikið á misskilningi og raunar vanþekkingu á því út á hvað þetta tæki gengur. Ég held að í þeirri stöðu sé langbest að efna til fundar með viðkomandi sérfræðingum og stofnuninni úti á akrinum og efna þar til samtals við fólk og fyrirtæki sem hafa eðlilega og skiljanlega mikinn áhuga á því og með stuðningi að byggja upp atvinnustarfsemi á sínu heimasvæði.