148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[21:04]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum tryggja þessa 12 daga í hverjum mánuði fyrir hvern bát á hvaða svæði sem er. Það sem ég og fleiri erum að segja er að á meðan það er eitthvert aflahámark ést það upp mjög fljótt á svæði A. Þar hafa að meðaltali verið sex til átta dagar í maí og júní. Þeir fara upp í 12. Þeir fá 12 pottþétta daga án þess að það sé neitt stopp. (LRM: Veður og annað telur nú.) Ef ég mætti bara klára. (LRM: Jú, gjörðu svo vel.) Þá er búið að veiða ansi mikið af kvótanum. Ef stöðvunarheimild Fiskistofu og aflamarkið verður ekki tekið af flyst megnið af smábátunum á svæði A.

Það kostar 300.000 kall að flytja trillu á Norðurfjörð. Það er ekki mikið ef það þýðir að maður getur séð fyrir fjölskyldu sinni með þessum strandveiðum. 700 fjölskyldur um allt land reiða sig á þessar veiðar. Við megum ekki fara að gera grundvallarmistök með því að hringla í kerfinu. Íslenska sjávarútvegskerfið er kerfi ófyrirsjáanlegra afleiðinga af einhverjum breytingum sem einhverjum datt í hug að gera.

Já, já, komumst að þverfaglegu samþykki — en komumst þá að réttu niðurstöðunni fyrir alla.