148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það má örugglega velta ýmsu fyrir sér í því. Eins og kom fram í ræðu minni er hér um að ræða nokkuð mikla vinnu sem byggist á samráði á milli aðila. Þetta var unnið af hópi og byggt á skýrslu sem ég nefndi og ég tel að hv. þingmaður hafi fengið í sínar hendur og látið gera árið 2015. Hv. utanríkismálanefnd hefði þurft að fara yfir einstaka þætti málsins, en það er ánægjulegt að náðst skuli hafa góð samstaða af hálfu þeirra aðila sem þarna sátu fyrir hönd ráðuneytanna og Samtaka atvinnulífsins og líka aðra þá aðila sem við getum sagt að séu hagsmunahópar atvinnulífs. Þannig er þessi niðurstaða tilkomin.

Um einstaka þætti og fjárlagaliði; ég ætla kannski ekki að fara nákvæmlega með það að öðru leyti en því að ég er ánægður með þá breiðu samstöðu sem hefur náðst um það hvernig fara skuli með málið. Það er líka grundvallaratriði til þess að við getum náð árangri. Því eins og hv. þingmaður þekkir mætavel þá náum við ekki árangri í markaðssókn á erlendum mörkuðum nema með góðri samvinnu atvinnulífsins og opinberra aðila.