148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó mér fyndist það kannski vera svolítið óljóst. Ég treysti því að þeir sem hafa unnið að þessu frumvarp hafi skoðað t.d. þá leið að fara með þetta í gegnum einkahlutafélag sem væri rekið án hagnaðar.

Síðan ef ráðherra gæti aðeins hjálpað mér að átta mig á því hvort verkefni Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, eru eingöngu þau sem henni verða falin með þjónustusamningi. Eða eru einhver önnur verkefni sem stofnunin eða sjálfseignarstofnunin á að vinna sem eru utan þessa þjónustusamnings? Þá getur maður spurt sig: Hefur stofnunin frjálsar hendur um hvað hún gerir utan þjónustusamningsins, eða er verið að reyna búa þannig um hnúta að starfsemin sé eingöngu sú sem felst í þjónustusamningnum? Ég tek eftir því að í lagatextanum sjálfum er talað um að gera þjónustusamning til fimm ára. Það stendur ekki fimm ára í senn. (Forseti hringir.) Getur sú staða komið upp að það verði ekki gerður samningur eftir fimm ár við Íslandsstofu, sjálfseignarstofnun? Eða er þetta lapsus í lagaákvæðinu þannig að alltaf eigi að vera þjónustusamningur (Forseti hringir.) við ríkið meðan sjálfseignarstofnunin starfar yfirhöfuð?