148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Við erum örugglega öll í þessum sama vagni að reyna að auka útflutningstekjur okkar og markaðssetja okkar vörur, hvort sem er á sviði menningar, sjávarútvegs, landbúnaðar, hvað sem er. En það þarf að samhæfa og stilla strengina mun betur. Ég ætla að horfa á þetta frumvarp sem viðleitni alla vega í þá veru. Það er mikilvægt og það er um leið fagnaðarefni að atvinnulífið sem slíkt vill axla þá ábyrgð. Það sem ég er einfaldlega að segja er að við sem erum í utanríkismálanefnd og fáum væntanlega þetta frumvarp þangað hljótum að spyrja ríkisendurskoðanda, eftirlitsstofnanir með fjármálum ríkisins, mjög gaumgæfilega um hvort þetta sé rétta fyrirkomulagið. Um leið megum við ekki missa þessa dýnamík sem felst í því að atvinnulífið kemur með ábyrgum hætti þarna inn.

Ég held að þetta sé eitthvað sem verði að skýra um leið og það eru ýmsar vangaveltur sem koma upp sem ég kem að í ræðu minni á eftir eins og í 2. gr. varðandi útflutnings- og markaðsráð. Hversu víðtækt er það vald? Samkvæmt greininni sjálfri virðist valdið vera mjög mikið, en þar segir:

„Hlutverk ráðsins er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning.“

Erum við að meina að ráðið hafi þá yfirumsjón með verkefnum eins og Iceland Naturally og Pure Iceland, ýmsum verkefnum sem hafa verið unnin í því ráðuneyti sem hv. þingmaður var líka í á undan mér á sínum tíma, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu? Hversu víðtækt er vald ráðsins í þeim efnum? Þá skiptir máli að vita hvað hefur verið unnið í samhæfingu ráðuneyta, að ráðuneytin hafi öll verið saman í þessu. Ég veit að það var leitað til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á sínum tíma og minn aðstoðarmaður kom m.a. að þessu. En það skiptir máli að ráðuneytið allt leggist á sveifarnar með það að þetta virki raunverulega af því að við vitum vel að þegar upp er staðið þá verður alltaf togstreita (Forseti hringir.) á milli ráðuneyta. Mun þetta frumvarp koma í veg fyrir eða ýta (Forseti hringir.) undir frekara samstarf á milli ráðuneyta að mati þingmannsins?