148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið það fram hér að við hyggjumst lækka tryggingagjaldið um 0,25 prósentustig, og gerum ráð fyrir því í þessari fjármálaáætlun, óháð öðrum breytingum sem er verið að boða. Þar get ég m.a. vísað til þess að í tengslum við samtal á vinnumarkaði höfum við nýlega gefið það út að atvinnuleysisbætur muni hækka.

Þegar hv. þingmaður ber saman tryggingagjaldið eins og það var er hann að bera saman samsett gjald, þ.e. almenna hlutann og síðan öll réttindatengdu gjöldin sem leggjast saman í eitt tryggingagjald. Ef menn vilja bera saman þann tíma og tímann í dag þurfum við líka að skoða réttindin sem eru að baki. Ríkissjóður fjármagnar greiðslur úr almannatryggingakerfinu m.a. með almenna hluta tryggingagjaldsins. Sá hluti á útgjaldahlið ríkissjóðs hefur einfaldlega breyst í grundvallaratriðum yfir þetta tímabil. Fjármögnun ríkissjóðs með tryggingagjaldi til þeirra verkefna sem verið er að horfa til hefur gjörbreyst til hins verra, ef við horfum á það út frá ríkissjóði.

Sömuleiðis verðum við að skoða hver réttindin eru í Fæðingarorlofssjóði, hver réttindin eru í Atvinnutryggingasjóði. Þegar við höfum átt það samtal síðar á þessu ári — og ég heyri kröfur frá vinnumarkaðnum um bæði lengingu og hækkun greiðslna t.d. í Fæðingarorlofssjóði, sem rímar vel við stefnu ríkisstjórnarinnar. Ef við ætlum að fjármagna þann hluta réttindanna þá kallar það á hækkun á þeim hluta tryggingagjaldsins. Ætlum við að lækka almenna hlutann, krónu fyrir krónu samhliða þessu? Ef við gerum það getum við aukið réttindin án þess að tryggingagjaldið hækki. En við munum þá sitja uppi með miklu verr fjármagnað almannatryggingakerfi í landinu. Það er ástæðan fyrir því að ég tel orðið tímabært að huga að því að kljúfa þetta tvennt algjörlega í sundur. Tala jafnvel um almannatryggingagjald og svo önnur vinnumarkaðstengd tryggingagjöld.