148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Ég verð að segja eins og ég sagði í ræðu minni í upphafi að við ákváðum, þessir flokkar, að leggja til hliðar ákveðin ágreiningsmál og reyna að byggja upp velferðarsamfélag. Við erum að bæta, eins og gerðist núna í haust á fjárlögum, tæpum 17 milljörðum í heilbrigðismál. Og við erum að bæta núna tæplega 40 milljörðum til viðbótar. Það getur ekki talist annað en vinstri græn áhersla. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður trúi að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið hér einn við völd að hann hefði gert þetta. Ég held að það sé alveg klárt mál að það er áhersla okkar Vinstri grænna sem þarna birtist. Við erum að auka framlögin um tæplega 12 milljarða á fjárlögum ársins vegna félags- og tryggingamála og húsnæðismála, 28 milljarðar verða uppsafnaðir í fjármálaáætluninni. Þetta er allt saman merki sem við Vinstri græn stöndum að, og svo fleira og fleira í umhverfismálum og menntamálum og öðru slíku.

Varðandi tekjuskattinn og lækkun hans er það auðvitað svo að ef við hefðum verið ein í ríkisstjórn hefðum við væntanlega ekki farið þessa leið. Það er samkomulagsmál að gera þetta. Það er hins vegar þannig að persónuafslátturinn, eins og ég nefndi í ræðu minni, verður tekinn til skoðunar í tengslum við vinnumarkaðinn og annað slíkt, hvort það sé leiðin sem aðilar telja heppilegast að fara. Ég er sammála því að það ætti að gera.

Varðandi bankaskattinn þá sagði ég hér áðan og stend enn við það; ég treysti því að lækkun bankaskattsins skili sér í minni vaxtamun, annars er tilganginum ekki náð. Bankarnir geta í rauninni ekki gert annað en skilað því til baka til okkar. Við höfum kvartað mjög mikið yfir háum vöxtum á Íslandi. Ég tel því að það geti orðið gríðarleg bót fyrir allt samfélagið ef við — og ekkert ef — (Forseti hringir.) ég treysti því bara að það nái fram að ganga.