148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni við þessa umræðu lauk ég máli mínu með því að fjalla um landbúnaðarkafla þessarar áætlunar, en ég ætla að bæta aðeins við það og fara síðan í nokkra aðra málaflokka eins og þeir birtast í áætluninni.

Hvað varðar landbúnaðarmálin þá kemur fram að það eigi að móta matvælastefnu Íslands og hún liggi fyrir 2019. Einnig segir að mikilvægur þáttur í vinnslu stefnunnar sé að virkja hagsmunaaðila og samtök. Ég ætla rétt að vona að svo verði gert í þetta sinn, því það hefur nú ekki borið við að haft sé mikið samráð í mikilvægum málaflokkum. Ég nefni sem dæmi tollasamninginn við Evrópusambandið þar sem lítið sem ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila. Þannig að sporin hræða í þessum efnum.

Ég vil vekja athygli á því að lokum hvað varðar landbúnaðarkaflann að í útgjaldaramma hans næstu fimm árin er gert ráð fyrir lægri fjárframlögum ár hvert. Árið 2019 er áætlunin 16 milljarðar, en 2023 er upphæðin komin í 15,4 milljarða. Það verður því seint sagt að þessi ríkisstjórn sé eitthvað sérstaklega hliðholl bændum að mínu mati.

Næst vil ég aðeins víkja að byggðamálum. Í kaflanum um sveitarfélög og byggðamál kemur fram að áfram verði unnið að því í gegnum byggðaáætlun að jafna búsetuskilyrði m.a. hvað varðar raforku- og fjarskiptamál. Þetta er jákvætt. Það er sjálfsagt að benda á það sem er jákvætt í þessari áætlun, það er vissulega ekki allt neikvætt. Þetta er ánægjulegt og að stefnt sé að því að hlutfall lögheimila og fyrirtækja með aðgang að ljósleiðara verði komið í 99,9% árið 2023. Þetta er mjög brýnt hagsmunamál og brýnt byggðamál.

Í töflunni í þessum kafla um markmið er talað um að jafna tækifæri til atvinnu. Þetta er einnig stórt mál þegar kemur að byggðamálum. Hins vegar er þetta ekkert rætt frekar og í þessari sömu töflu segir að viðmið verði sett þegar upplýsingar liggja fyrir. Þetta er náttúrlega engin áætlun, að orða þetta með þessum hætti. Það er ekki nóg að hafa einhverjar fallegar töflur með göfugum markmiðum þegar það eru engin viðmið eða engin tímasetning. Þetta má því miður sjá í fleiri köflum í þessari fjármálaáætlun.

Síðan er annað stórt byggðamál sem ég hef ekki fundið staf um í þessu plaggi, það er þrífösun rafmagns eins og ég kom m.a. inn á í minni fyrri ræðu. Þrífösun rafmagns er mjög brýnt mál, á það sérstaklega við í hinum brothættu byggðum eins og í Skaftárhreppi. Það er talað um framhald verkefnisins um brothættar byggðir, sem er jákvætt, en þrífösunin er það sem brennur mest á fólki á þessu svæði. Það kemur mér satt best að segja á óvart að ekki skuli minnst á þetta vegna þess að það er kostnaðarsamt að ljúka þrífösun rafmagns. Það ætti því að vera inni í þessari fimm ára áætlun ef ríkisstjórnin ætlar að halda áfram við þetta brýna verkefni.

Í kaflanum um sjávarútveg og fiskeldi er rætt töluvert um rannsóknir og nauðsyn þess að efla rannsóknir. Þar er að finna setningar eins og, með leyfi forseta, „með auknum rannsóknum leggja stjórnvöld grunn að ábyrgri stjórnun og arðsemi sjávarútvegs“. Einnig segir að til að ná árangri í sjálfbærri nýtingu fiskstofna þurfi miklar og stöðugar rannsóknir og vöktun á nytjastofnum, bæði stofnmælingar og stofnmat. Þetta er allt gott og gilt. En Hafrannsóknastofnun varð fyrir miklum niðurskurði í fjárveitingum á árunum eftir hrun og í raun hafa fjárveitingar undanfarinna ára hjá Hafrannsóknastofnun rétt dugað til að halda sjó ef svo má að orði komast. Lítils háttar aukning kom vegna rannsókna í fiskeldi og loðnu. Það sem bráðvantar hins vegar í þennan mikilvæga málaflokk er nýtt rannsóknaskip. Núverandi skip, Bjarni Sæmundsson, er rétt að verða 50 ára gamalt og skipið er dýrt í rekstri sökum aldurs. Þjóð sem kennir sig við fiskveiðar á ekki að þurfa að búa við svo gamalt rannsóknaskip. Í þessari áætlun sem er til fimm ára eru engin áform um að kaupa nýtt skip og lítið rætt um fjárveitingar til rannsókna. Því miður er þetta bara orð á pappír en ekki á borði.

Kaflinn um sjávarútveg og fiskeldi er því nokkuð lýsandi fyrir marga málaflokka í þessari fjármálaáætlun að mínu mati. Það er talað um mikilvægi þessa og mikilvægi hins, svo er ekkert gert. Talað um mikilvægi hafrannsókna, það þurfi miklar og stöðugar rannsóknir. Og hvað svo? Ekki neitt. Engar hækkanir á fjárveitingum. Engin áform um nýtt hafrannsóknaskip o.s.frv.

Ef ég vík aðeins að kaflanum um ferðaþjónustuna þá vil ég fyrst nefna komu- og brottfarargjaldið. Það er nauðsynlegt að setja þetta gjald á sem fyrst. Fjármálaáætlunin kveður á um að það eigi að kanna leiðir til gjaldtöku. Ég spyr: Er ekki búið að kanna þetta nóg síðustu árin? Er ekki búið að vinna alla grunnvinnuna? Það hefði ég haldið. Þetta hljómar eins og þarna sé eitthvert hik á ferðinni. Það stendur ekki berum orðum að það eigi að leggja þetta gjald á sem er orðið löngu tímabært.

Ég vil einnig koma að því sem nefnt er umhverfislega sjálfbær ferðaþjónusta og hlutfall vistvænna bíla af bílaleigubílum. Hlutfall vistvænna bíla meðal bílaleiga er í dag 0,2%. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að þetta hlutfall verði komið í 20% eftir fimm ár. Þetta tel ég ekki raunhæfa áætlun. Auk þess þarf að ræða hvaða áhrif það hefur á tekjur ríkissjóðs ef bifreiðum sem nota eldsneyti kemur til með að fækka svo ört á næstu árum. Um það er ekkert í þessari áætlun.

Í kaflanum um framhaldsskólana kemur fram að árið 2016 hafi 60% framhaldsskólanemenda sótt stúdentsprófsbrautir, en 30% starfsnámsbrautir. Hlutfall nemenda sem sækja starfsnám er of lágt að mínum dómi. Það er skortur á iðnmenntuðu fólki í landinu og það er nauðsynlegt að stjórnvöld hvetji til iðnnáms með skipulegum hætti og jafnvel með einhvers konar ívilnunum. Iðngreinar eru samfélaginu mjög mikilvægar. Það hefur farið fram upplýsinga- og kynningarstarf en það er hins vegar engan veginn nægilegt. Í stjórnarsáttmálanum er einmitt talað um að efla starfsnám. Ég get ekki séð að það sé eitthvert átak í þessum efnum í áætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Það er miður. Það er talað fallega um hlutina, en svo ekki söguna meir.

Að sama skapi finnst mér ekki haldið nægilega vel utan um nemendur af erlendum uppruna. Brottfall þeirra úr framhaldsskóla er mjög hátt, eða 65%. Þetta kom m.a. fram í svari menntamálaráðherra á 146. löggjafarþingi við fyrirspurn þáverandi þingmanns Nichole Leigh Mosty. Í áætluninni kemur fram að ríkisstjórnin ætli einungis að kanna stöðuna. Það þarf ekkert að kanna hana. Hún liggur fyrir. Það er búið að því. Það kemur skýrt fram í svarinu. Stundum held ég að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir hjá þessari ríkisstjórn.

Það er þó jákvætt að það eigi að skoða aðrar tillögur sem hafa komið upp til að sporna gegn brotthvarfi eins og stofnsetning lýðháskóla. Að lækka viðmið í brottfalli um 3 prósentustig á fimm árum, úr 25 í 22%, finnst mér ekki metnaðarfullt markmið.

Það er jákvætt að það eigi áfram að endurskoða útdeilingu fjárveitinga til framhaldsskólans, svokallað reiknilíkan. Þetta er brýnt verkefni og satt best að segja skil ég ekki hvað sumir framhaldsskólar koma alltaf illa út úr þessu reiknilíkani í fjárveitingum eins og Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Í þeirri vinnu verður að ræða við hagsmunaaðila eins og skólastjórnendur og það er brýnt að auka gagnsæið í fjárveitingum til framhaldsskólanna. Í áætluninni kemur fram að það eigi að ljúka þessari vinnu árið 2021. Það verður að ríkja sátt um þetta nýja líkan.

Að lokum, frú forseti, vil ég gera málefni Suðurnesja að umtalsefni í þessari umræðu. Allir bæjarstjórar á Suðurnesjum komu á fund fjárlaganefndar í vetur og lýstu þungum áhyggjum yfir því að opinberar stofnanir á Suðurnesjum eins og heilbrigðisstofnunin, löggæslan, fjölbrautaskólinn og málefni Helguvíkur fengju hlutfallslega lægri fjárveitingar frá hinu opinbera en sambærilegar stofnanir á landsbyggðinni. Það er brýnt að fram fari heildstæð skoðun á þessum málaflokki hvað varðar Suðurnesin. Álag á innviði á Suðurnesjum er verulegt vegna fordæmalausrar fjölgunar íbúa, (Forseti hringir.) erlends vinnuafls og hælisleitenda. Því miður get ég ekki séð að það eigi að standa við það af hálfu ríkisvaldsins að leiðrétta þetta ranglæti á Suðurnesjum í (Forseti hringir.) fjárveitingum sem mjög brýnt er að gera.