148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla nú að leyfa mér að vera dálítið neikvæð. Það er ekki vegna þess að klukkan er orðin svona margt.

Í kafla um fjölskyldumál, þar sem fjallað er um stuðning við fjölskyldur og börn, kemur fram að helsta áskorun málaflokksins sé vaxandi geðheilbrigðisvandi, bæði barna og fullorðinna, og fjölgun ungra öryrkja þar sem geðraskanir eru algengasta ástæða örorku. Niðurstaðan er sú að mikilvægt sé að mæta þessum áskorunum með því að styrkja grunnþjónustu, efla forvarnir og snemmtæka íhlutun og auka aðgang að geðheilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að auka snemmtæka íhlutun í málefnum barna og bætt aðkoma efnalítilla barnafjölskyldna. Það er mikilvægt markmið, í ljósi þess að árið 2016 bjuggu 11,3% barna undir 18 aldri á heimilum með tekjur undir lágtekjumörkum og nánast helmingur af heimilum með börn á erfitt með að ná endum saman, eða 49,4%.

Þar sem við vitum hversu neikvæð áhrif fátækt, það að berjast í bökkum við að ná endum saman, hefur á geðheilbrigði fólks og öryggi barna og kostnaðurinn sem það leiðir af sér fyrir samfélagið til lengri tíma, hefði ég talið brýnt að fara í markvissar aðgerðir til að vinda ofan af þeirri þróun. Markmiðið er að eftir fimm ár verði hlutfall heimila, með börn, sem eiga erfitt með að ná endum saman 43% og hlutfall barna á heimilum með tekjur undir lágtekjumörkum 8%. Finnst ráðherra það ásættanlegt markmið?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í barnabæturnar. Við hvaða launaupphæð byrja barnabæturnar að skerðast fyrir t.d. einstæða foreldra? Ég get ekki betur séð en að það gerist við 240.000 krónur á mánuði, sem er undir lágmarkslaunum. Er einhver útfærsla af fjölskyldugerð sem fær óskertar barnabætur á lágmarkslaunum? Svo vil ég benda ráðherra á villu í fjármálaáætluninni á bls. 354, en þar kemur fram að verið sé að hækka barnabætur um tæplega 10% miðað við árið 2017. Raunin er sú að þær hækka um þá prósentutölu miðað við árið 2016 en lækka í raun um 2% miðað við árið 2017. Er þetta villa eða er þetta fegrunaraðgerð?

Í kafla um framtíðarsýn stendur að meginmarkmið í fjölskyldumálum á Íslandi sé að börnum og fjölskyldum þeirra verði búið gott líf þar sem allir búi við jöfn tækifæri. Ég get ekki séð að það sé á dagskrá næstu fimm árin frá skilgreindum markmiðum og aðgerðum. Hvenær sér ráðherra fyrir sér að ná því markmiði?