148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:39]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Staðan er sú að félagsmálaráðuneytið er með samning við Hugarafl um 17 millj. kr. á ári á árinu 2017, 17 milljónir 2018 og 17 milljónir 2019. Ég hef sagt að það stendur ekki til af hálfu félagsmálaráðuneytisins að hætta að greiða upp í þennan samning til Hugarafls. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að það er ekki ætlunin að félagsmálaráðuneytið, í gegnum Vinnumálastofnun, hætti stuðningi sínum við Hugarafl. Breytingin sem verður er sú að heilbrigðisráðuneytið, og það er hluti af stefnubreytingu í heilbrigðismálum, setur upp sérstök teymi sem eiga að vera í öllum heilbrigðisumdæmum og lokar Geðheilsu – eftirfylgd.

Það sem ég hef sagt er að það er margt í uppbyggingunni á Hugarafli, hvernig það úrræði er uppbyggt, hvernig það er opið, hvernig einstaklingar hjálpa þar hver öðrum með stuðningi þriðja aðila, sem er gríðarlega jákvætt. Það eru mjög margir sem hafa nýtt þetta, rétt eins og hv. þingmaður kom inn á. Þess vegna er ekki ætlunin af hálfu félagsmálaráðuneytisins að lækka neinar upphæðir í tengslum við þetta. En sú breyting sem er að verða heilbrigðismegin kallar auðvitað á það að félagsmálaráðuneytið skoði með hvaða hætti Hugarafl geti verið áfram. Það sem ég sagði í þessu efni er að vinna er í gangi um hvernig það getur orðið. Ég hef átt gott samtal við marga hv. þingmenn, við velferðarnefnd þingsins og fleiri aðila. Niðurstaða í því liggur ekki fyrir að svo komu, en það er ekki ætlun félagsmálaráðuneytisins (Forseti hringir.) að hætta stuðningi við Hugarafl og hefur aldrei verið. Samningurinn er enn í gildi milli félagsmálaráðuneytisins og Hugarafls.