148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst beita sér fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu. Í fjármálaáætluninni er rætt um að hugsanlega verði breytingar á barnabótakerfinu en ekki er gert ráð fyrir auknu fjármagni í málaflokkinn. Nú er kerfið þannig að byrjað er að skerða barnabætur langt undir lágmarkslaunum. Hjá pörum eru barnabætur að fullu skertar við tekjur upp á 470.000 kr. á mánuði ef par á eitt barn og við 570.000 kr. á mann ef börnin eru tvö. Hjón sem bæði eru í launaðri vinnu en á lágum launum fá litlar barnabætur hér á landi. Fátækt meðal barnafjölskyldna er meiri en hjá barnlausum fjölskyldum.

Á Norðurlöndum hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings við barnafjölskyldur en hér á landi hefur dregið úr vægi þeirra jafnt og þétt. Upphæðirnar í fjármálaáætluninni gera ekki ráð fyrir að fleiri fjölskyldur fái barnabætur eða að þær hækki umtalsvert. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði í umræðunni um fjármálaáætlunina í gær að hann gæti fyrir sitt leyti ekki samþykkt að fólk með hærri tekjur fengi barnabætur. Viðhorf hans virðist vera að barnabætur eigi fyrst og fremst að vera fátæktarstuðningur og hafi ekkert með það að gera að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri.

Er hæstv. forsætisráðherra sammála þessum áherslum fjármálaráðherrans um tilgang barnabóta og að ekki standi til að styrkja það jöfnunartæki á kjörtímabilinu með hærri upphæðum og að fleiri barnafjölskyldur njóti stuðnings?