148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér liggur svo mikið á hjarta að ég næ ekki að fara yfir allt hér, en örstutt um nýsköpunarmálin. Í fjármálaáætlun er boðuð sú stefna að arðgreiðslur úr Landsvirkjun verði nýttar í svokallaðan þjóðarsjóð. Það er nokkuð sem hefur verið rætt á meðal formanna allra flokka fyrr á Alþingi og ég vonast til þess að við munum eiga samtal um það aftur bráðum og þar verði sérstaklega horft til þess að nýta hluta þess fjármagns í nýsköpun. Af hverju er það mikilvægt? Jú, ég held að fjárfesting í nýsköpun og þekkingargreinum sé eitt það mikilvægasta sem samfélag á borð við okkar getur gert, tiltölulega lítið samfélag sem byggir verðmætasköpun sína á auðlindum. Þá verðmætasköpun þurfum við að auka. Og til þess verðum við að huga að grunninum sem ég nefndi hérna áðan í háskólunum, en líka fjárfestingu í nýsköpun.

Hvað varðar byggðamálin, samgöngumálin og fjarskiptamálin þá er sú staða auðvitað mjög knýjandi. Við erum með gríðarlegt aukið álag á vegi landsins með þeim tveimur milljónum ferðamanna sem núna fara um landið, en við sjáum líka breytta atvinnuhætti sem reiða sig náttúrlega ekki síst á öruggt fjarskiptasamband. Þar er ég að vitna til ferðaþjónustunnar sem er kannski öðruvísi atvinnuvegur en við höfum átt að venjast að því leytinu til að þetta eru mjög mörg fyrirtæki, það teljast 2.300 fyrirtæki starfa í ferðaþjónustu. Þau eru dreifð um land allt. Þetta eru lítil fyrirtæki, ekki margir sem vinna þar, en reiða sig algjörlega á það að vera í stöðugu sambandi.

Þess vegna segi ég: Samgöngur og fjarskipti. Þess vegna erum við að ráðast í þetta átak í samgöngumálum á árunum 2019, 2020 og 2021 og nýta til þess eignatekjur úr fjármálafyrirtækjum af því að þetta er auðvitað undirstaðan fyrir því að fólk geti búið um land allt, að við getum sagt að fólk geti valið sér búsetu, að ungt fólk geti valið sér búsetu. Þetta eru þeir tveir þættir sem þar skipta mestu því ég hef nú þá trú á fólki að það finni sér svo sín tækifæri sjálft þegar innviðirnir eru í lagi.