148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um öryrkjamál. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að koma á starfsgetumati. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 4 milljörðum í þann málaflokk. Þetta er ekki nema einn þriðji af því sem þarf. Þess vegna spyr ég: Á að gera þetta á þremur árum? Eða er tilgangurinn með starfsgetumatinu sá að taka öryrkjana, endurhæfa þá og setja þá út á götu án vinnu? Við þurfum fyrst að tryggja hlutastörf og annað áður en við förum í starfsgetumatið. Þarna er einhver skekkja í reikningnum. Til stendur að lækka skattprósentuna um 1%. Það skilar 14 milljörðum, plús bankaskatturinn sem er 6 milljarðar, það eru 20 milljarðar kr. sem nota á í þessa lækkun. Þessir 20 milljarðar myndu duga til þess að taka út allar skerðingar í kerfinu, þessar keðjuverkandi skerðingar út um allt kerfið og myndu einfalda kerfið að stórum hluta.

Svo er annað í þessu sem ég er ekki sáttur við, og ég skil öryrkja líka, það er þessi afturvirkni, vegna þess að nú eru komnir 16 mánuðir síðan eldri borgarar og öryrkjar fengu 25.000 kr. úr lífeyrissjóði plús krónu á móti krónu skerðingar í burtu. Það þýðir á mannamáli að í dag eiga öryrkjar inni um 450.000 að lágmarki — 450.000 að lágmarki er krafa sem þeir eiga inni. Ætlið þið að bæta þeim muninn? Eða er þetta spil til að koma því þannig fyrir að öryrkjarnir fái ekki þennan hlut, vegna þess að eldri borgararnir eru búnir að fá hann? Af hverju fá öryrkjarnir hann ekki?