148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að hér sé hv. þingmaður, ef ég byrja á því síðasta sem hann kom að, að bera saman epli og appelsínur. Hér er hann að bera saman heildarútgjöldin í lok tímabilsins, ekki að taka tillit til rammans til útgjalda og þeirra fjárfestinga sem eru boðaðar hér þó að sumu leyti sé hún sambærileg og þá vitna ég til nýs Landspítala sem við erum væntanlega flest sammála um. En hins vegar er auðvitað stór munur á því sem hér er til að mynda verið að leggja til í fjárfestingu, svo að ég vitni í samgönguframkvæmdir. Ég held að þarna sé samanburðurinn (Gripið fram í.) — en við erum að tala um rammasettu útgjöldin, (Gripið fram í.) já, en ég er að tala um rammasettu útgjöldin þegar við berum saman þessar ólíku fjármálaáætlanir.

En síðan af því að hv. þingmaður talar um útvistun verkefna, svo ég vitni í hv. þingmann, þá finnst mér það bara ódýrt. Mér finnst það bara ódýrt þegar við erum nýkomin úr tímabili þar sem við erum búin að ráðast í óteljandi skattbreytingar sem hv. þingmaður hefur nú gagnrýnt, ekki síst í sínu fyrra starfi, einmitt gagnrýnt samráðsleysi.

Hins vegar ætla ég að taka tillit til þess sem hv. þingmaður segir að það skorti kannski á boðað samráð við Alþingi sem heild og minni hlutann. (Forseti hringir.) Þá held ég að það sé eitthvert verkefni sem við eigum að leysa. Við eigum þá að kalla til aukins samráðs í nefndum. Ég tek það bara á mig, að unnið verði betur úr því. Ég held að þetta snúist ekki um útvistun, ég held að þetta snúist um breytt hugarfar.