148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég hygg að við séum bæði áhugafólk um það, ég og hæstv. ráðherra, eftir því sem hún sagði hér áðan, að halda kostnaði við heilbrigðisþjónustuna í lágmarki. Svo vill til að fyrir nokkrum árum kom fram gagnmerk skýrsla McKinseys um Landspítala – háskólasjúkrahús sem hefur því miður fengið allt of litla umfjöllun og væri efni í sérstaka umræðu sem ég myndi hvetja til að fram færi. Ég tel að mikil þörf sé á því á stærsta vinnustað á Íslandi að þar sé hugað að meðferð fjár og væri þess vegna mjög til í að fara yfir það mál með ráðherra.

Hitt er svo annað, þessi tími er fáránlega stuttur, að ég verð líka að lýsa áhyggjum vegna þess að mér hefur þótt gæta nokkurs sinnuleysis hjá ráðherranum við frjáls félagasamtök. Ég ætla að minna á að nú síðast í morgun berast sorgarfréttir frá SÁÁ um að þeir treysti sér ekki lengur til að taka við (Forseti hringir.) unglingum þar inn. Það bætir á biðlistana sem þegar eru, bæði þar og annars staðar. Mig langar til að fá stutt svar frá ráðherra um hvað hún hyggist gera til að vinna bug á þessu.