148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða innlegg. Ég vil fyrst benda á að meira fjármagn er að koma inn í þennan málaflokk og mjög stór hluti af því fer í uppbyggingu innviða, vöktun og rannsóknir þar að lútandi, og ég fagna því mjög. Auðvitað myndi ég alveg þiggja meira, það skal ég taka undir með hv. þingmanni. Nú er þegar gjaldtaka í Þingvallaþjóðgarði og hún er hafin líka í Vatnajökulsþjóðgarði, sem sagt í Skaftafelli. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að það sé fyrirhugað í sumar líka við Jökulsárlón.

Það eru heimildir fyrir gjaldtöku í þjóðgörðunum sem hefur ekki verið rætt neitt um að afturkalla. Þar er alveg klárlega hægt að ná inn fjármagni sem tengist þjónustu. Menn greiða fyrir að tjalda, nýta sér salernisaðstöðu eða leggja bifreiðinni sinni rétt eins og menn greiða fyrir það í borginni.

Varðandi búvörusamningana á umhverfisráðuneytið fulltrúa í endurskoðunarnefndinni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði á dögunum. Eitt af þeim atriðum sem ég legg áherslu á er að við reynum að vinna að því að grænka búvörusamningana eins mikið og hægt er. Þar eru ýmsar hugmyndir sem hægt væri að ræða hér í meiri smáatriðum, en ein af þeim varðar greiðslur sem snúa þá að einhverjum verkefnum í landgræðslu og skógrækt (Forseti hringir.) sem gætu komið inn sem annars konar verkefni fyrir bændur.