148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, sem þó er einhvern veginn eins og kaflinn um samgöngumál og almenningssamgöngur sem ég geri hér að umræðuefni, eins og sá kafli er í fjármálaáætlun. Það eru mér og öðrum sem huga að loftslagsmálum gríðarleg vonbrigði að sjá að ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skili nánast auðu þegar kemur að almenningssamgöngum. Það er ekki nóg, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að segja bara að á næstu árum sé ætlunin að efla almenningssamgöngur án þess að hafa þar nokkra einustu sýn eða setja í það raunverulega fjármuni.

Ég ætla ekki að draga úr vilja hæstv. ráðherra til að laga beinlínis hættulega vegi. Alls ekki. Vil hvetja hann til dáða þar enda ástandið á vegum landsins fyrir neðan allar hellur. Öryggi vegfarenda er ekki tryggt. En þegar fjármálaáætlunin er skoðuð, sem er áætlun en samt mjög mikilvægt stefnuplagg ríkisstjórnarinnar og sýnir á spilin hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í þessum málum, þegar við skoðum þetta plagg ríkisstjórnarinnar er bara ekki hægt að sjá nein merki þess að verið sé að huga að almenningssamgöngum hvað þetta varðar að neinu leyti.

Ég vil auðvitað vera sanngjörn og fagna því að ákveðið er að leggja hjólastíga um allt land. Ég tel að það sé ekki bara umhverfismál heldur líka lýðheilsumál. En það er hreinlega ekki nóg, ekki nálægt því að vera nóg. Það dugar ekki, hæstv. ráðherra, að koma hingað og segjast ætla að ræða málin þegar verkefnið er eins brýnt og raun ber vitni.