148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Ég er sammála hv. þingmanni um að þær upphæðir sem við erum að setja í þetta leysa ekki allan vanda. En þær eru engu að síður umtalsverðar miðað við það að á síðastliðnum 20 árum eru aðeins tvö ár, 2008 og 2009, þar sem menn hafa sett meiri fjármuni til þessarar uppbyggingar en á næstu þremur árum. Þessi fimm ár í fjármálaáætluninni eru með þeim árum sem við höfum verið hvað duglegust við þetta en það veitir ekkert af, ég er sammála hv. þingmanni um það.

Við erum þar af leiðandi að tala um að á næstu þremur árum sé stærðargráðan upp á 70–75 milljarða alls í þessum lið, framkvæmdir og viðhald á vegum hjá Vegagerðinni. Það eru vissulega miklir fjármunir. En varðandi þær hugmyndir sem ég hef talað jákvætt um á liðnum vikum og mánuðum, vegna þess að verkefnið er risastórt, þá kemur þetta vel til greina. Við höfum verið með til skoðunar að flýta ákveðnum framkvæmdum sem ellegar myndu ekki koma til álita fyrr en kannski eftir fimm eða tíu ár. Ég get nefnt sem dæmi brú eins og t.d. við Selfoss, yfir Ölfusá. Vegurinn á milli Selfoss og Hveragerðis er fyrirhugaður og er í samgönguáætlun núna og verður væntanlega í forgangsröðun í næstu samgönguáætlun en sú framkvæmd nýtist auðvitað ekki að fullu ef brúin kemur síðan ekki fyrr en eftir tíu ár. Það gæti verið áhugavert að setja hana inn í einhverja flýtiframkvæmd.

Ég hef nefnt til að mynda Sundabraut sem er mikilvæg framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu. Fari hún af stað er hún af þeirri stærðargráðu að hún mun aldrei verða gerð öðruvísi en með einhvers konar gjaldtöku. Þegar kemur til þess að tvöfalda Hvalfjarðargöngin sem kannski verður fyrr en seinna mun það væntanlega vera gert með svipuðum hætti. (Forseti hringir.) Vaðlaheiðargöng eru þarna í dag og það eru fleiri vegir hringinn í kringum landið þar sem þessi möguleiki er uppi. (Forseti hringir.) Ég vil þannig alls ekki útiloka að þessi leið verði farin. Hún er fyrst og fremst til skoðunar. En ég ítreka, (Forseti hringir.) og þess vegna endaði ég ræðu mína með þeim orðum, að áskoranirnar eru stórar. Það þarf stundum að hugsa út fyrir boxið þegar þar að kemur.