148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar mikilvægu spurningar. Það er einfaldlega þannig að ríkisstjórnin og allir flokkar sem að henni standa voru sammála um þessa innviðauppbyggingu í samgöngum og hún var m.a. mynduð um það. Það er svo sem ekki neitt sérstakt að í fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar skuli birtast skýr sýn á að hér þarf að fara í hraðari uppbyggingu en við höfum gert í mörg ár.

Eitt af þeim verkefnum sem er mjög mikilvægt að fara í er að auka almenningssamgöngur. Við eigum í viðræðum við landshlutasamtökin um það verkefni sem hefur verið hringinn í kringum landið. Það er mjög mikilvægt. Það gekk um tíma nokkuð vel, svo kom smá hiksti í það. Farþegum fjölgaði lengi vel en síðan gekk það ekki. Á sama tíma hefur verið samningur hér á höfuðborgarsvæðinu um almenningssamgöngur þar sem markmiðið var að auka fjölda farþega um 50%, um 8 milljónir farþega að ég held. Þótt ekki hafi tekist að komast alla leið í það sem menn ætluðu er fjöldinn engu að síður orðinn 11,5 milljónir farþegar. Það hefur gengið í rétta átt.

Menn hafa spurt sig: Af hverju hafa menn ekki náð lengra? Þá koma upp hugmyndir um að það þurfi sterkara kerfi. Borgarlínan er viðbrögð við því. Í ríkisstjórnarsáttmálanum segjum við að við ætlum að styðja við það verkefni. Ráðuneytið og Vegagerðin komu inn í stýrihóp Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til þess, reyndar með tveimur fyrirvörum, annars vegar að það væri verið að skoða fleira en almenningssamgöngurnar og hins vegar að það væri engin fjárskuldbinding fólgin í því.

Núna þegar við birtum fjármálaáætlun höfum við ekki klárað viðræðurnar við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Mér vitanlega hefur ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sett í sínar þriggja ára áætlanir fjármuni til að fara í þessa uppbyggingu. En ég held að það séu mjög mörg sveitarfélög, ef ekki öll, tilbúin til þess, við erum alla vega tilbúin og ég er tilbúinn til þess að setjast niður (Forseti hringir.) til að mynda að loknum sveitarstjórnarkosningum og þróa þetta verkefni áfram. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af þeim verkefnum sem koma að því m.a. hvernig við ætlum að takast á við og mæta markmiðum okkar í loftslagsmálum.