148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er ágætt að fá það viðurkennt hjá hæstv. samgönguráðherra að það er ekki nóg að gert. Það er ágætt að fá það líka viðurkennt hjá hæstv. samgönguráðherra að skýjaborgirnar, allt það sem var sagt við gerð og stofnun þessarar ríkisstjórnar um að það ætti að fara í stórfellda innviðauppbyggingu, var bara hjómið eitt. Þess vegna tölum við um hringlandahátt þegar maður rekur fullyrðingar ráðherrans frá því hann tók við störfum og til dagsins í dag.

En auðvitað viljum við í Viðreisn hjálpa til. Við viljum leita lausna. Það þarf meira fjármagn. Við verðum að horfast í augu við það að vegna samsetningar ríkisstjórnarinnar þá er mjög viðkvæmt að tala um aðra fjármögnun heldur en beint af fjárlögum. En við viljum hjálpa til, m.a. samgönguráðherra, að leita allra leiða og ná pólitískum „konsensus“, fyrirgefið að ég sletti, hæstv. forseti, því ég tel að við þurfum að verða sammála um það og ná sátt um það hvernig við fjármögnum frekar samgöngukerfið. Ég horfi hér á Vestmannaeyjar úti í sal í beinni, við þurfum að setja meira fjármagn þangað og fjármagn sem við þurfum að beina líka á Vestfirðina og út um allt land. (Forseti hringir.)

Hvernig ætlar samgönguráðherra að tryggja það að við náum pólitískri sátt um að fá meira fjármagn til þess að byggja upp innviðina? (Forseti hringir.) Þær tillögur er ekki að finna (Forseti hringir.) í fjármálaáætluninni. Ég sakna pólitískrar sýnar og stefnumótunar.