148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:50]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vildi vekja máls á við hæstv. ráðherra í tengslum við þessa fjármálaáætlun. Annað snýr að fjölmiðlum og hitt að menntun sem ég geri að umtalsefni í seinni ræðu minni.

Í fjármálaáætluninni segir um fjölmiðla, með leyfi forseta:

„Helsta verkefni stjórnvalda á sviði fjölmiðlamála á næstunni er að móta stefnu í málaflokknum sem byggist á ítarlegum upplýsingum um stöðu fjölmiðla, rekstrarforsendur þeirra, framtíðarhorfur og fleira.“

Nú kom fram í fréttum í vikunni frá Hagstofunni úttekt á tekjum íslenskra fjölmiðla síðasta áratug eða svo. Þar kemur fram að þær tekjur hafi dregist saman um 17% að raunvirði á þessum tæpa áratug. Þetta eru fjölmiðlar í heild sem þýðir að tekjur einkarekinna fjölmiðla hafa minnkað miklu meira en þetta því að ekki hafa tekjur Ríkisútvarpsins lækkað að raungildi á þessum tíma. Þvert á móti raunar því að hlutdeild Ríkisútvarpsins á íslenskum fjölmiðlamarkaði vex nú hröðum skrefum á kostnað einkarekinna fjölmiðla. Þar kemur til tekjumódelið þar sem Ríkisútvarpið hefur bæði belti og axlabönd, með verðtryggðan þjónustusamning og síðan nettótekjuaukningu á hverju ári sem nemur fjölda greiðenda. Þetta gerir þeim kleift að vera miklu fyrirferðarmeiri og betri í að kaupa til sín efni sem er vinsælt og dýrt og það eykur aftur hlutdeild þeirra á auglýsingamarkaði.

Nú vil ég spyrja ráðherrann: Hvað líður þeirri úttekt sem er í gangi núna, m.a. á grundvelli skýrslu sem hún kynnti hér í vetur? Má ekki treysta því að ráðherra verði búinn að móta sér þessa stefnu sem ég nefndi áðan, og getið er um í fjármálaáætluninni, áður en kemur (Forseti hringir.) að endurnýjun á þjónustusamningi við Ríkisútvarpið sem rennur út á næsta ári, 2019?