148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu fyrirspurn og athugasemdir um fjármálaáætlunina. Ég vil fyrst nefna það að börnum af erlendum uppruna í íslensku skólakerfi hefur fjölgað alveg gríðarlega á síðustu árum. Rannsóknir benda líka til þess að staða þeirra í íslensku skólakerfi heilt á litið mætti vera betri, þess vegna finnst mér mjög brýnt að við styrkjum umgjörðina í kringum þau. Það þarf að efla móttöku þeirra. Það þarf að efla íslenskukennslu svo að þau njóti sömu tækifæra og önnur börn í skólakerfinu. Við megum ekki gleyma því, þetta eru allt íslensk börn sem eru að læra hér.

Ég vil nefna tvennt í þessu sem mér finnst skipta máli. Á framhaldsskólastiginu settum við á þessu ári sérstakar 800 milljónir til þessa hóps sem hefur sýnt litla hæfni í íslensku og stærðfræði, m.a. vegna þess að þetta eru þeir nemar sem eru líklegastir til þess að lenda í brotthvarfi á framhaldsskólastiginu.

Í öðru lagi vil ég líka nefna að við vorum að gera breytingar á úthlutunarreglum LÍN þannig að í fyrsta sinn munu einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar á Íslandi fá tækifæri til þess að sækja um lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Mér finnst það mjög ánægjulegt að stjórn Lánasjóðsins hafi lagt þetta til og er mikið framfaramál.

Varðandi íþróttir og aðgengi barna af erlendum uppruna að íþróttum þá tel ég að það sé alveg gríðarlega mikilvægt. Það er oft í gegnum íþróttir og tónlist sem börn ná að tengjast með allt öðrum hætti en inni í skólastofunni. Þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er mjög mikilvægt og skiptir máli.