148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi létta spurning í lokin er dálítið þung, ég skal bara viðurkenna það. Ég sé ekki fyrir þróun veiðigjalda í náinni framtíð. Ég vona heitt og innilega að sjávarútvegurinn verði um ókomin ár þannig starfandi að hann sé vel gjaldfær fyrir nýtingu á auðlindinni eins og hann hefur verið undanfarin ár, að þetta verði sanngjörn gjaldtaka. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að með breytingu á gengi íslensku krónunnar verði hann í betri færum til að greiða hærra gjald en greinin telur sig geta borið í dag.

Varðandi meginspurningarnar um fiskeldið er staðan þannig að við erum núna komin einhvers staðar í 20 þús. tonna eldi. Það eru 580 ársstörf nú þegar komin í þessa atvinnugrein. Það er gert nú þegar og komu inn í fjárlög þessa árs heimildir fyrir Hafrannsóknastofnun til að stunda frekari rannsóknir og vinna betur að þáttum sem lúta að áhættumati og því sem snýr að mögulegri blöndun á eldisfiski og villtum stofnum okkar. Það sem upp á vantar á komandi árum hef ég kynnt og gerði grein fyrir því þegar ég lagði fram frumvarpið sem ég mælti fyrir í vikunni. Ég áforma að leggja fram á næsta hausti frumvörp sem annars vegar gera ráð fyrir gjaldtöku vegna úthlutunar eldissvæða og hins vegar frumvarp sem snýr að því að taka upp auðlindagjald fyrir sjókvíaeldi. Í skýrslu starfshópsins komu fram ákveðnar hugmyndir sem, ef ég man rétt, gerðu ráð fyrir 15 kr. gjaldi per kíló og miðað við 67 þús. tonna eldi jafngildir það um það bil einum milljarði á ári.