148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:24]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að nota tækifærið hér til að fjalla um fluggáttir inn í landið og í því sambandi hvað hægt er að gera til að dreifa ferðamönnum um allt land allt árið, því að undanfarin misseri hefur verið reynt að laða ferðamenn til fleiri svæða landsins. Ýmislegt hefur verið framkvæmt til þess að ná þeim markmiðum enda er það ljóst að það er allra hagur að fleiri njóti.

Mínar vangaveltur snúa að fluggáttum eins og ég sagði áðan og þá er ég sérstaklega að huga að þeim aðstöðumun sem birtist í því að flugvélaeldsneytisverð er hærra á Egilsstöðum og á Akureyri en það er á Keflavíkurflugvelli.

Mig langar því að spyrja hæstv. ferðamálaráðherra hvort hún hyggist ekki örugglega leggja okkur í Miðflokknum lið þar sem við höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem kveður á um að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa lagafrumvarp þar sem gerðar verða ráðstafanir til þess að lækka eldsneytisverð til millilandaflugs.