148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:05]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það fylgir atvinnugrein sem fer um alla kima samfélagsins að útgjöldin verða mjög víða. Þess vegna, þegar ég tala um þarfir ferðaþjónustunnar og hvar þurfi að spýta í lófana, tek ég fram að umhverfisráðuneytið mun verja fjórum milljörðum í landsáætlun um uppbyggingu innviða á tímabilinu. Framlög til landvörslu verða tveimur milljörðum hærri en þau hefðu verið að óbreyttu. Framlög til löggæslu hækka um hundruð milljóna á ári. Að ákveðnu leyti vegna aukins eftirlits á ferðamannastöðum og á hálendi. Átak í vegamálum, sem nemur nærri 17 milljörðum á þremur árum umfram venjuleg framlög, nýtist ferðaþjónustunni sérstaklega. Það hefur verið mjög mikið í umræðunni að það vanti innspýtingu í samgöngukerfið. Það er að stórum hluta fyrir ferðaþjónustuna og vegna ferðamanna sem um vegina keyra. Við erum með Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem er með tæpar 800 milljónir á ári. Þegar nefnt er að innviðauppbygging hafi ekki fylgt vextinum er það líka vegna þess að vöxturinn hefur hingað til verið ósjálfbær. Þegar talað er um að það sé ekki hausatalningin sem skipti máli er það hárrétt. En þá mun það líka eiga við þegar fer að hægja á vextinum, það er ekki hausatalningin sem skiptir máli heldur að okkur takist að ná betra skipulagi utan um greinina, bæði í stjórnsýslunni en ekkert síður út um landið allt, og á þessum ferðamannastöðum. Það mun þýða að við þurfum að fara í ákveðna aðgangsstýringu. Það er líka til að hækka þessi þolmörk. Sums staðar er staðan þannig að byggja þarf staðinn betur upp með innviðum. Stundum er það ekki góð leið vegna þess að við viljum ekki setja frekari innviði á svæðið til þess að náttúruperlan sem fólk er að koma að skoða haldist sem náttúruperla. En það er hægt að fara í ýmsar aðgerðir til að hækka þessi náttúrulegu þolmörk. Ein leið til þess er að við stýrum betur inn á svæðið. Verkefnin eru stór og víða. Ég vildi að ég hefði tíma til að fara yfir það hvað hefur verið gert undanfarin misseri (Forseti hringir.) og hvað er fram undan. Áskoranirnar eru miklar en ég er þess fullviss að okkur muni takast vel til. En þá þarf þingheimur allur að vera með í því og sérstaklega greinin sjálf.