148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:24]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar fyrir yfirferðina. Þetta er stór málaflokkur sem heyrir undir ráðherrann. Ég ætla að byrja á að einangra mig við ferðaþjónustuna og vitna í nokkra punkta úr fjármálaáætluninni, með leyfi forseta:

„Á síðustu árum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að laða ferðamenn til Íslands með samhæfðum markaðsaðgerðum. Þá hafa aðgerðir miðað að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið …“

„Gangi spár eftir verða erlendir ferðamenn nálægt 2,4 milljónum á árinu 2018 … Þegar litið er til farþegaspár lengra fram í tímann má gera ráð fyrir u.þ.b. 3,5 milljónum erlendra farþega til landsins árið 2025.“

Síðan er annars staðar talað um að greina þolmörk náttúru, samfélags og efnahagslífs, kanna leiðir til gjaldtöku, m.a. möguleika á álagningu komu- eða brottfarargjalds, í samráði við greinina.

Síðan er talað um uppbyggingu salernisaðstöðu víða um land sem vantar töluvert upp á. Eins og hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir gerði langar mig líka að koma inn á eldsneytisgjald á flugvöllum úti á landi sem virðist vera ástæða þess að ekki er flogið út á land erlendis frá með ferðafólk. Í sambandi við komu- og brottfarargjaldsþáttinn sem var til umræðu nánast allt kjörtímabilið 2013–2016 spyr ég: Er eitthvað að frétta af því? (Forseti hringir.) Er eitthvað í gangi þar? Eins í sambandi við salernismálin: Mun ríkið taka gjald eða verður sú þjónusta gjaldfærð?