148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að heyra að ráðherra deilir þessum áhyggjum. Ég horfi einmitt til þess, t.d. varðandi gjaldtöku við aðgangsstýringu, að við erum þegar farin að beita gjaldtöku í þjóðgörðum, en við eigum mjög erfitt með að opna á það í aðgangsstýringu að öðrum svæðum. Ég skil alveg að það kunni að vera lagalegar flækjur, en við þurfum einhvern veginn að ná að leysa úr þessu. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við sköpum þessari atvinnugrein einfaldar, skýrar leikreglur þannig að hún fái að vaxa og dafna innan þess ramma sem þær leikreglur skapa henni. Það kann ekki góðri lukku að stýra til lengri tíma litið að stjórnvöld séu að reyna að handstýra því hvar greinin er að vaxa, hvert hún er að fara. Stjórnmálin eru á endanum alltaf að elta þróun í þessum efnum en ekki að leiða hana. Það þekkjum við í vexti og viðgangi flestra þeirra atvinnugreina sem við búum við í dag. Stjórnmálamenn eru ekki réttu aðilarnir til að vísa veginn, en við þurfum að skapa leikreglurnar þannig að þær séu skýrar, þjóni markmiðum og (Forseti hringir.) hagsmunum þjóðarinnar í þessum efnum, en að greinin fái þá vaxið og dafnað innan þeirra leikreglna með sem bestum hætti.