148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:01]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var að tala um. Mér þótti athyglisvert að heyra hæstv. ráðherra tala um að hann myndi taka vel í það sem fjármálaráðherra ef hæstv. dómsmálaráðherra legði á það áherslu að fjölga lögreglumönnum. Eins og áherslurnar eru í fjármálaáætlun er talað um að efla landamæravörslu sem er eðlilegt vegna skuldbindinga okkar varðandi Schengen. Það er talað um að efla málsmeðferð í kynferðisbrotamálum sem ekki á að þurfa að hafa mörg orð um þörfina á. Svo er talað um að efla greiningardeild lögreglustjóra vegna fjármálagerninga sem einnig er afar nauðsynlegt.

En þegar kemur að því að fjölga almennum lögreglumönnum segir einungis að ætlun ríkisstjórnarinnar sé að styrkja almenna löggæslu og rannsóknir mála til að ná þjónustustigi og mæta fjölgun ferðamanna. Það vantar 200 lögreglumenn á landinu. Þar af vantar 100 lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ófremdarástand. Það er ekki nýtilkomið heldur hafa Landssamband lögreglumanna og ríkislögreglustjóri ítrekað sent stjórnvöldum ákall vegna þessa skorts.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af öryggi almennings þegar lögreglan er svo fjársvelt.