148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera hér að umræðuefni skipulag fyrri umr. fjármálaáætlunar sem er áætlun um stefnu í ríkisrekstrinum og um þá fjármuni sem verja á til að halda þeirri stefnu uppi til næstu fimm ára. Það er afar mikilvægt plagg.

Umræðan í gær og fyrradag var málefnaleg og í heildina gagnleg. Þó að við í Samfylkingunni höfum gagnrýnt fjármálaáætlunina harðlega, bæði stefnuna og þá fjármuni sem ætlaðir eru til að halda henni uppi, höfum við ekki síður gagnrýnt virðingarleysi þeirra ráðherra sem ætluðu ekki að láta sjá sig við þá umræðu. Þegar í ljós kom að tveir hæstv. ráðherrar ætluðu að hunsa umræðuna um þessa mikilvægu áætlun kölluðu þingflokksformenn eftir fundi með forseta. Á þeim fundi voru gerðar málamiðlanir. Hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra sem fer með öll þessi mikilvægu velferðarmál sem við þekkjum ætlaði að vera í útlöndum og senda staðgengil í umræðuna. Það þótti okkur óásættanlegt. Í stað þess að hæstv. ráðherra breytti sínum plönum breyttum við þingmenn okkar plönum og tókum umræðu við hann í fyrrakvöld.

Hæstv. dómsmálaráðherra lætur sig vanta í annað sinn, annað árið í röð, í umræðu um stefnu í þeim mikilvæga málaflokki. Það er algjörlega óásættanlegt og má ekki gerast aftur. Við í Samfylkingunni gerum skýra kröfu um ábyrga stefnumótun og ábyrga áætlunargerð og ábyrga efnahagsstjórn eins og lög um opinber fjármál gera ráð fyrir. Og við gerum þá skýru kröfu að hver einasti hæstv. ráðherra standi sig, mæti í þingsal og taki umræðuna (Forseti hringir.) við okkur þingmenn og vandi til sinna verka.