148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er alltaf til í umræður um hvernig við getum bætt vinnulagið. Hér fór fram ágætisumræða klukkan hálftvö í nótt þar sem var mikil ánægja með það vinnulag sem við höfum komið okkur upp í opinberum fjármálum. Það var eindrægni á meðal þeirra sem tóku til máls um að við værum á réttri leið, við þyrftum að sníða af einhverja vankanta. Ég er áhugasamur um að við gerum það saman. Upphrópanir í þá veru að það sé lögbrot að hafa ekki kynnt þetta laugardaginn fyrir páska, 31. mars, heldur 4. apríl eru út í bláinn. Krakkar! Við erum að tala um þrjá eða fjóra daga.

Að við séum að stimpla áætlun, séum bara einhver afgreiðslustofnun? Fyrri umr. tók yfir 20 tíma. Fram undan er heil nefndavika og svo kemur síðari umr. Gerum ekki svona lítið úr sjálfum okkur með því að tala um að öll þessi vinna þýði að við séum bara stimpilstofnun.

Hvað varðar það að hafa mikið að gera í nefndaviku er ég mjög til í að ræða það í rólegheitum hvernig við getum skipulagt starfið betur. Ég sit í tveimur nefndum og allar mínar nefndavikur eru svona. Það eru fundir alla dagana. Eru hv. þingmenn ekki á villigötum ef þeir kvarta yfir því að (Forseti hringir.) nefndafundir og vinna við fjármálaáætlun taki frá þeim tíma til að búa til fyrirspurnir fyrir ráðherra?