148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið þannig að hrópandinn í eyðimörkinni verður stundum svolítið niðurlútur af að hlusta á sjálfan sig líka. En vissulega eru tækifæri. Stóra kaldhæðnin er að þetta er stærra öryggismál vegna þess að það eru svo mikil tækifæri í þessu. Þessar ógnir af innviðum og upplýsingaöryggi koma til vegna þess að upplýsingatæknin er svo svakalega gagnleg. Það er ástæðan fyrir því að vefir eins og Facebook eru notaðir af fólki jafnvel þótt það viti að ýmislegt er varhugavert við þá, eitthvað sem fólk kynnir sér ekki alveg nógu vel, vegna þess að þeir eru mjög gagnlegir. Það er ástæðan fyrir því að við erum með kennitölu, eitthvað sem mér er persónulega pínulítið í nöp við, vegna þess að það er gagnlegt. Það er gagn að allri þessari tækni. Það er bara liður í því.

Ég nýti því þetta tækifæri sem ég fæ til að ræða varnarmálin þegar hæstv. ráðherra leggur fram skýrsluna vegna þess að sá angi af breytingunum sem koma af upplýsingatæknibyltingunni er eitthvað sem okkur tekst almennt ekki að mínu mati að ræða við önnur tilefni. Ég nýti tækifærið hér til þess. En vissulega vona ég að það verði aðeins kátari tónn í þeim sem hér stendur þegar kemur að öðrum þingmálum sem varða upplýsingatæknina. Því að tækifærin eru vissulega mikil. Ef við vitum hvað við erum að gera, höfum augun á boltanum, pössum okkur á ógnunum og nýtum tækifærin vel og rétt er það auðvitað frábært. Enda er enginn að leggja til að við notum tæknina minna. Fyrr má nú vera.