148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

Lyklafellslína.

[15:51]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Að sjálfsögðu getur ráðherra alltaf átt frumkvæði að því að óska eftir fundi með aðilum hvaða mála sem er. En maður les auðvitað í það ef sveitarfélög óska ekki sérstaklega eftir fundi með ráðherra við þessar aðstæður, hvort ekki sé þörf á því eða hvort sú beiðni eigi eftir að koma. Vel má vera að ég muni biðja um fund með þeim til að fara yfir þetta mál. Framkvæmdin hefur auðvitað verið lengi í kerfinu og sveitarfélög hafa unnið mikið í málinu.

Hvað varðar alþjóðasamninga þá er það svo sem stór spurning. Ef spurt er hvort ég vilji einhvern veginn slíta Ísland frá Árósasamningnum þá er ég ekki tilbúin til að segja það. En ég er samt meira en til í að fara almennilega yfir það hvort við séum í einhverjum tilfellum að ganga lengra en þörf krefur. Og ef við erum að því, þarf að setja það á vogarskálar hvað það þýðir?

Ég horfi bara á flutningskerfið í heild sinni og við sjáum að það er of veikt. Ýmsar framkvæmdir hafa tekið allt of langan tíma. En hvort svarið við því sé að leggja sérstök lög á einstakar framkvæmdir — það er almennt ekki heppilegt. (Forseti hringir.) Mér finnast það ekki góð vinnubrögð. Ég held frekar að við eigum að reyna að ná sátt um að vinna betur að verkefninu í heild sinni.