148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[17:53]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga skuli vera komin fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ágætu framsögu. Það er að vísu þannig að verði fyrirliggjandi tillaga samþykkt bíða okkar mikil verkefni og mörg sem er erfitt að svara hvernig enda öll, m.a. lög og reglur sem þurfa að fylgja í kjölfarið.

Eitt af því sem ég veit að hæstv. ráðherra er örugglega sammála mér um er að það er viðkvæmur strengur í okkur Íslendingum þegar kemur að frjálsri för um landið. Við viljum helst geta farið um okkar eigið land eins frjálst og hægt er. Auðvitað þarf að taka tillit til eignarréttar o.s.frv. en ég sé hins vegar að hér er verið að boða ýmsar takmarkanir. Það verður hugað að lögum og reglum þegar kemur að verndun svæða sem ég skil alveg. Ein ástæðan fyrir því að ég setti mig mjög upp á móti náttúrupassanum var að ég skildi ekki þá hugmyndafræði að ég þyrfti að vera með eitthvert sérstakt skilríki upp á vasann til að geta ferðast um landið.

Þegar kemur að því að fara að stýra umferð og takmarka hana er fyrst og fremst verið að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða, ég held að hæstv. ráðherra sé að boða það. Þá spyr ég: Hvernig ætlar hann að tryggja að okkur líði samt sæmilega vel í landinu og höldum þá heilögu reglu sem er ferðafrelsi um okkar eigið land?