148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[18:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom berlega fram í umræðum um fjármálaáætlun fyrir helgina að við erum langt frá því að vera klár í það að uppfylla það sem við þurfum að gera til að taka vel á móti ferðamönnum. Svokölluð stórsókn í vegaframkvæmdum er til dæmis fyrir neðan allar hellur svo að það sé nefnt. Það er búið að benda á hvaða upphæð þarf til þess að koma þeim málum í skikk.

Ég segi líka aftur: Við þurfum að hugsa þetta mál lengra en eins og þetta sé ein vertíð. Við ætlum að fá þessa gesti í heimsókn aftur og aftur og aftur. Þess vegna þurfum við að tryggja að upplifun þeirra og móttaka sé með þeim hætti að þeir vilji koma. Við eigum sem sagt ekki að okra blint á þeim. Við eigum ekki að reyna að leita leiða til þess að reyna að græða sem allra, allra, allra mest á þeim á sem allra, allra, allra skemmstum tíma og svíkja allt undan skatti í leiðinni. Við eigum ekki að gera þetta. Það á að búa svo um hnútana að það sé ekki gert. Það er óþolandi að ein stærsta gjaldeyrisuppspretta þjóðarinnar núna, eða þessi atvinnugrein, skuli liggja undir því ámæli. Það er óþolandi. Fyrir utan það að þeir aðilar í ferðaþjónustu, sem er náttúrlega mikill meiri hluti, sem eru að standa sig og standa skil á öllum sínum sköttum sitja ekki við sama borð og þeir sem ekki gera það. Þetta er staða sem við eigum ekki að bjóða neinum upp á.

Þess vegna segi ég: Við eigum líka að vera óhrædd við þetta. Það mun koma að því að við munum þurfa að beita fjöldatakmörkunum. Við ættum að vera byrjuð á því á þeim stöðum sem eru viðkvæmastir og þola minnstan átroðning. Við eigum bara að taka þessar ákvarðanir og ekki vera smeyk við það. Því að það er svo mikið undir, eins og ég segi. Við ætlum að fá þessa sömu gesti hingað aftur og aftur og aftur. Þá getum við ekki boðið þeim upp á vegi sem þeir geta ekki ekið um og við getum ekki boðið þeim upp á enga salernisaðstöðu, sem er víst að koma upp í ár. Við verðum að taka almennilega á móti þessu fólki, en til þess þurfum við líka gjaldtöku.