148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir. Þetta var í öllum meginatriðum það sem ég reiknaði með að hv. þingmaður myndi segja. Ég vil nota tækifærið og fagna því og vona að við förum saman í þá vinnu að koma kerfinu og eftirlitskerfinu í megrun sem fleiri hafa gott af en Miðflokksmenn þessa dagana.

Það er engin spurning til viðbótar. Ég vildi bara fagna því sem fram kom hjá hv. þingmanni og vona að hægt sé að vinna mikilvægt starf hvað það varðar að draga úr kostnaði við kerfið, eftirlitskerfið, fyrir fyrirtæki úti á landi, þannig að menn geti varið tíma og orku í uppbyggilegri hluti. Þó að ég sé auðvitað ekki að tala fyrir því að allt eftirlit verði látið sigla lönd og leið, þá held ég að við séum komin á þann stað í dag að við erum löngu komin út úr ballans í þessum efnum.