148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:28]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleiðingu að svari við spurningunni, svarið kom kannski ekki alveg eins og ég bað hann um. Byggðaáætlunin er svolítið byggð upp á verkefnum sem heyra undir verkefni einstakra ráðuneyta, þó að auðvitað sé það einn ráðherra sem leggur hana fram. Ég er að velta því fyrir mér hvort þarna séu kannski ekki margir fletir á samstarfsverkefnum á milli ráðuneyta, til að mynda heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, jafnvel samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Það er hárrétt, eins og kom fram í máli þingmannsins, að það er verulegur munur á því í dag hvaða aðgengi íbúar þessa lands hafa til að mynda að sérfræðiþjónustu. En ég veit að ég og hv. þingmaður erum hins vegar algjörlega sammála um að sérfræðiþjónusta úti á landi er ekki lykillinn að heilbrigðisþjónustunni þar. Lykillinn að heilbrigðisþjónustunni úti á landi er góð heilsugæsla og góð grunnþjónusta. Það er þar sem skiptir langmestu máli að fólk geti gengið að því vísu að þegar það þarf á læknisþjónustu að halda sé hún aðgengileg í heimahéraði. Jafnvel þó að þjónustan í heimahéraði geti ekki klárað allt málið geti hún a.m.k. greint og skipulagt og séð viðkomandi íbúa fyrir því að hann fái þá þjónustu og meðferð sem hann væntir og sem hann á í raun rétt á samkvæmt þeim lögum sem gilda um heilbrigðisþjónustu á Íslandi.