148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

köfun.

481. mál
[22:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um köfun. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um köfun, nr. 31/1996, en lengi hefur staðið til að endurskoða þau. Á undanförnum árum hefur köfunarstarfsemi aukist til muna hér á landi, sérstaklega með auknum straumi ferðamanna. Alvarleg köfunarslys hafa vakið umræðu um lög og reglur sem gilda um köfun og sér í lagi hvernig eftirliti með starfseminni er háttað. Markmið frumvarpsins er að skýra regluverk köfunar hér á landi og uppfæra í ljósi áðurnefndra breytinga.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru að lagðar eru til breytingar og uppfærslur á ýmsum ákvæðum, t.d. um gildissvið, skilgreiningar og fleira. Þá er einnig lagt til að viðurkenning og eftirlit með köfunarbúnaði færist til Vinnueftirlits ríkisins í samræmi við samræmdar evrópskar reglur um persónuhlífar. Þá er gerð tillaga um að ákvæði um skírteini og skilyrði fyrir útgáfu þeirra verði gerð skýrari og ítarlegri.

Lagt er til að sérstaklega sé mælt fyrir um kröfur til náms í köfun en það er ekki gert í núgildandi lögum.

Að lokum er lagt til að rannsókn köfunarslysa verði aftur færð undir rannsóknarnefnd samgönguslysa en við stofnun hennar, sameiningu ólíkra nefnda, féll brott tenging við núgildandi lög.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.