148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:03]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins til að botna fyrra andsvarið að ítreka að Íbúðalánasjóður á ekki við rekstrarvanda að glíma eins og staðan er í dag. Rétt eins og hv. þingmaður kom inn á er mikilvægt að koma þeim fjármunum sem eru í sjóðnum í vinnu. Auðvitað er hluti af því í einhverri ávöxtun í dag en staða sjóðsins og þau kjör sem hann er að fjármagna sig á leyfa það að vextir sjóðsins séu lækkaðir.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Í fyrsta lagi skiptir það langmestu fyrir landsbyggðina vegna þess að það er fyrst og fremst hún sem er að nýta sér fjármögnunarleiðir sjóðsins. Það að lækka vexti hjá Íbúðalánasjóði, sem rekstur hans leyfir, skiptir lykilmáli fyrir landsbyggðina. Í annan stað vil ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að fullur pólitískur vilji er til þess. En Íbúðalánasjóður er fjármálafyrirtæki. Það krefst þess að slíkar aðgerðir séu mjög vel ígrundaðar og undirbúnar og rökstuddar af hálfu þriðja aðila þannig að menn, rétt eins og hv. þingmaður kom inn á, fari ekki að segja: Heyrðu, þetta fer með rekstrarstöðu sjóðsins. Það gerir það ekki, en ekki náðist að koma þessu inn í þetta frumvarp á þeim skamma tíma sem gafst.

Í öðru lagi hleypur kostnaður gagnvart uppgreiðslugjöldunum — ég held að ég hafi svarað þessu í skriflegri fyrirspurn hér í þinginu fyrir ekki svo löngu — á einhverjum milljörðum ef þau yrðu afnumin gagnvart sjóðnum. Það er auðvitað vinna sem þarf þá að fara í, með hvaða hætti það yrði fjármagnað á móti. Sjóðurinn sjálfur gæti ekki gert það einn og sér. En klárlega er þetta eitthvað sem að mínu viti ætti að fara fram í vinnu við heildarendurskoðun á lánareglum sjóðsins sem ég kom inn á að væru boðaðar. Þá væri hægt að taka ákvörðun um það með hvaða hætti unnið yrði með þessa staðreynd sem eru þessi uppgreiðslugjöld og með hvaða hætti hægt væri að leysa þau.