148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegir forseti Ég trúi því að þær hugmyndir og sú stefnumörkun sem mörkuð var í lögunum um húsnæðisáætlanir og þá kröfu sem sett er á sveitarfélögin að skila húsnæðisáætlunum til Íbúðalánasjóðs séu til mikilla bóta. Ég held að það geri að verkum að sveitarfélögum verði betur ljóst hver staðan innan sveitarfélagsins er. En ég hef líka áhyggjur af því að það er tiltölulega stutt síðan þetta hófst og ég held að við séum að feta okkur einhver skref áfram í þessu. Ég hef samt smááhyggjur af því að húsnæðisáætlanirnar séu eingöngu eða of mikið miðaðar við félagslega stuðninginn og félagslega kerfið. Eins og ég hef skilið þetta er þetta húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið allt. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er lykilatriði og skylda sveitarfélaganna að skaffa þeim húsnæði sem á þurfa að halda og geta það ekki sjálfir, en það er hægt að fara mismunandi leiðir í því. Þegar við horfum fram á þá stöðu sem verið hefur uppi á húsnæðismarkaðnum á síðustu misserum gerir það sveitarfélögum líka sérstaklega erfitt að uppfylla þessa skyldu, þegar ekkert er byggt og ekkert framboð er af húsnæði. Þá er hægt að beita einhverjum leiðum, hægt að leigja og annað, en þegar húsnæði er ekki til er það hvorki sveitarfélagið sem getur skaffað það né neinn annar. En ég held að það sé mjög mikilvægt að halda ákveðnu jafnvægi á húsnæðismarkaðnum. Það er í raun til bóta fyrir alla, bæði þá sem þurfa opinberan stuðning til þess annaðhvort að eignast eða leigja húsnæði og aðra sem eru að leigja eða kaupa á markaði.