148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

hlutabréfaeign LSR í fyrirtækjum á markaði.

528. mál
[16:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þau svör sem hann hefur veitt og mun vissulega kynna mér þessa skýrslu sem ég vissi ekki að hefði komið út. Ástæðan fyrir því hins vegar að ég spurði hæstv. ráðherra beint þessara spurninga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er sú að síðast þegar ég vissi voru tveir starfsmenn fjármálaráðuneytisins fulltrúar í stjórn þessa sjóðs. Það segir mér að gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins kemur fjármálaráðuneytið fram eins og atvinnurekandi og hefur þar tvo menn á móti þremur frá launþegasamtökum.

Því taldi ég rétt að spyrja fjármálaráðherra þessara spurninga vegna þess að ég leit þannig til að þeir tveir starfsmenn fjármálaráðuneytisins sem sitja í stjórn lífeyrissjóðsins væru fulltrúar ríkisins í stjórn sjóðsins og ráðherra hefði því beinan aðgang að þeim starfsmönnum til að fylgjast með hvernig stefnu er framfylgt.

Ég verð að lýsa því yfir þótt sjóðurinn sé vissulega óháður aðili og ekki háður fjármálaráðuneytinu sem slíkur, þá er það þó þannig að á sama hátt og atvinnurekendur hafa sagt að eðlilegt sé að þeir eigi stjórnarmenn í stjórnum lífeyrissjóða vegna þess að þeir reiða jú fram stóran hluta iðgjalda sem renna í þessa sjóði og vilja hafa þar nokkur áhrif, þá tel ég ekki óeðlilegt að fjármálaráðherra á hverjum tíma, fjármálaráðuneytið, hafi þessi sömu áhrif sem ég er að kalla eftir þarna.

Ég fagna því að ráðherra tekur undir með mér um að ofurlaun muni þvælast fyrir. Ég óttast það mjög og nýlegar fréttir af einstökum aðilum sem hafa (Forseti hringir.) jafnvel fengið milljónir króna í hækkun á mánuði, það hlýtur að gera gerð kjarasamninga (Forseti hringir.) í haust miklu snúnara og erfiðara verkefni og það hlýtur að verða miklu erfiðara að mynda nauðsynlegt traust á milli aðila núna í þessum viðræðum (Forseti hringir.) af því að þeir kjarasamningar sem í hönd fara eru náttúrlega gríðarlega mikilvægir.