148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

hlutabréfaeign LSR í fyrirtækjum á markaði.

528. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem við höfum lagt mesta áherslu á í þessu er að menn fylgi lögum og að menn setji sér stefnu eins og ég rakti áðan. Í hluthafastefnu LSR er m.a. tekið á því hvaða atriði það eru sem lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að liggi til grundvallar stjórnun viðkomandi fyrirtækja sem hann fjárfestir í. Þar kemur fram að LSR gerir kröfu um að fyrirtækin setji sér starfskjarastefnu sem uppfylli kröfu hlutafélagalaga og að hún taki mið af viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, kannski nokkuð almennt orðalag, en það er alveg ljóst að menn vilja að það sé skipulag á hlutunum og verið sé að fylgja einhverri fyrirframgefinni stefnu við mörkun starfskjara.

Mig langar að hvetja alla sem hafa áhuga á þessu máli til að skoða skýrsluna sem kom út í janúar, vegna þess að hún er svo stórfróðleg um þá gríðarlega miklu breytingu sem hefur orðið um völd lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi og þær ábendingar sem þar koma fram, m.a. um að þörf sé á því að lífeyrissjóðirnir almennt marki sér skýrar fjárfestingarstefnu til langs tíma og stefni að því að auka vægi erlendra eigna til að draga úr áhættu. Þarna var m.a. verið að takast á um spurninguna um hvort við ættum að skylda þá til þess að auka hlutfall erlendra eigna eða ekki, en niðurstaðan var sú að það væri óþarfi að skylda þá til þess.

Þar er líka tillaga um að lífeyrissjóðir séu skyldugir til að móta stefnu um stjórnarhætti lífeyrissjóða sem eiganda í atvinnufyrirtækjum, það ætti að vera skýr lagaskylda til þess, og að þeim ætti að vera gert skylt að birta a.m.k. árlega skýrslu með upplýsingum um samskipti við félög sem þeir fjárfesta í og um hvernig þeir greiða atkvæði á hluthafafundum. Þetta held ég að væri mjög til bóta.

Síðan eru fleiri tillögur sem varða sveigjanleika í kerfinu, heimildir (Forseti hringir.) einstaklinga til að ráðstafa með frjálsari hætti sínum sparnaði. Síðan er auðvitað í skýrslunni sérstaklega tekið til umfjöllunar (Forseti hringir.) ýmislegt sem varðar samkeppnismálin, sem er auðvitað orðið risastórt mál þar sem er í raun og veru ekki til það félag þar sem lífeyrissjóðirnir eru ekki með verulegan eða ráðandi hlut.