148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

vinna íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB.

499. mál
[16:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en komið hér upp og gert athugasemdir við þau orð sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lét falla um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er sorglegt og þetta er svo hættulegt í stjórnmálum þegar stjórnmálamenn eru ekki tilbúnir til þess að endurskoða hlutina, þegar stjórnmálamenn eru á flótta undan þeirri staðreynd að frá 1994 hefur eðli EES-samningsins breyst. Öll umgjörðin um samninginn hefur breyst líka. Þekkingin á samningnum hefur breyst á Íslandi og í Brussel. Kynslóðaskipti hafa átt sér stað víða. Nálganir á lausnum eru með öðrum hætti en verið hefur. Þess vegna er sjálfsagt að endurskoða, endurmeta, þennan samning. Þar með er ekki sagt að Íslendingar séu að skilja við Evrópu með neinum hætti. Alls ekki. Við hljótum að þora að gera það, nema þingmenn Viðreisnar séu slíkir Evrópusinnar að allt þaðan sé svo gott að við öllu megi gleypa og ekkert megi gagnrýna og skoða. Það gerum við að sjálfsögðu ekki, en það eina sem við erum að segja hér er að þetta er samningur sem eins og allir aðrir samningar er vert að endurskoða reglulega.